Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar - september 2025


Leiðrétting viðhengi vantaði í fyrri birtingu.

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-september 2025 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 4. desember.

Samantekinn árshlutareikningur A- og B-hluta

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 10,7 ma.kr. sem var 9,1 ma.kr. betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2024. Rekstrarniðurstaða var 0,8 ma.kr. betri en áætlað var. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 45,1 ma.kr. sem var um 3,4 ma.kr. betri niðurstaða en á sama tímabili ársins 2024. EBITDA í hlutfalli af tekjum var 20,6% sem er sambærilegt og fyrir sama tímabil 2024. Matsbreyting fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum hafði jákvæð áhrif á niðurstöður rekstrar sem var 2 ma.kr. yfir fjárhagsáætlun.

Fjármagnsgjöld (nettó) námu 19,8 ma.kr. eða 1,9 ma.kr. lægri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en þess síðasta. Vísitala neysluverðs hefur hækkað meira frá áramótum en áætlað var eða um 3,6% í stað 2,9%. Álverð hækkaði um 5,8% frá ársbyrjun til loka september.

Veltufé frá rekstri nam 30,9 ma.kr. eða 14,1% í hlutfalli af tekjum og lækkaði um 1%-stig miðað við sama tímabil 2024.

Handbært fé nam 39 ma.kr. í lok tímabils. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 39 ma.kr., greidd gatnagerðagjöld og seldur byggingarréttur námu 5,4 ma.kr. Lántaka og ný stofnframlög námu 28 ma.kr. á tímabilinu og afborganir lána og leiguskulda námu 22 ma.kr.

Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi 30. september 2025 námu 1.004 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum námu 548 ma.kr. Eigið fé nam 456 ma.kr. en þar af nam hlutdeild minnihluta 17 ma.kr. Eiginfjárhlutfall A- og B-hluta í lok tímabils nam 45,4%.

A-hluti

Rekstrarniðurstaða A-hluta var í jákvæð um 2,1 ma.kr. á tímabilinu sem var 3,3 ma.kr. betri niðurstaða en á sama tímabili 2024. Grunnreksturinn, þ.e. rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var jákvæð um 10,3 ma.kr.

Rekstur tímabilsins einkennist af sveiflum, bæði í tekjum og gjöldum. Skatttekjur voru 119,3 ma.kr. eða 2,3 ma.kr. yfir áætlun, þar af var staðgreiðsla útsvars 1,1 ma.kr. yfir áætlun. Staðgreiðsla útsvars hækkaði um 8,3 ma.kr. borið saman við sama tímabil 2024. Launaútgjöld hækkuðu um 6,9 ma.kr. á milli ára en nýir kjarasamningar hafa hér nokkur áhrif. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga var 4 ma.kr. hærri en á sama tímabili 2024 sem skýrist að mestu af áhrifum nýrra kjarasamninga.

Fjármagnsgjöld (nettó) námu 746 m.kr. Arður af eignarhlutum nam 7,0 ma.kr. en vaxtagjöld og verðbætur námu 8,5 ma.kr.

Veltufé frá rekstri nam 15 ma.kr. og var 9,6% í hlutfalli af tekjum tímabilsins.

Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 12,4 ma.kr. Greidd gatnagerðagjöld og sala byggingarréttar námu 5,4 ma.kr. Lántaka langtímalána tímabilsins nam 9,8 ma.kr. Afborganir lána og leiguskulda námu 6,5 ma.kr.

Heildareignir A-hluta samkvæmt efnahagsreikningi 30. september 2025 námu samtals 310 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 219 ma.kr. Eigið fé nam 90,8 ma.kr. Eiginfjárhlutfall nam 29%.

***

Á undanförnum misserum hefur óvissa í efnahagsumhverfinu aukist. Nýlegar efnahagsspár  gera nú almennt ráð fyrir minni hagvexti, hærri verðbólgu og lakari horfum á vinnumarkaði. Þá eru útflutningshorfur dræmari í kjölfar ýmissa rekstraráfalla undanfarinna mánaða en vísbendingar eru um að þessir atburðir hafi enn sem komið er takmörkuð áhrif á vinnumarkað og heimili í Reykjavík.

Orkuveita Reykjavíkur lagði fram breytta fjárhagsspá fyrir árið 2026 þann 24. nóvember sl. vegna þess að Norðurál, stærsti einstaki viðskiptavinur Orkuveitunnar, hefur upplýst félagið um að greiðslufall verði af hálfu fyrirtækisins vegna endurtekinna bilana í álveri þess á Grundartanga. Breytingar á fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fela í sér:

1,0 milljarða króna lægri rekstrarhagnaður á yfirstandandi ári en í fyrri spá.

Niðurskurð rekstrarkostnaðar um 2 milljarða króna á árinu 2026.

6 milljarða króna lækkun fjárfestinga á því ári.

Lækkun arðgreiðslna um 2 milljarða króna á árinu 2026.

Tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 voru lagðar fram í borgarráði 27. nóvember sl., þar sem tekið er mið af áhrifum breyttra efnahagshorfa og uppfærðrar fjárhagsspár Orkuveitu Reykjavíkur. Í fjárhagsáætlun 2026-2030 er gert ráð fyrir að öll markmið fjármálastefnu séu uppfyllt frá og með árinu 2025.

Reykjavík, 4. desember 2025.

Nánari upplýsingar veitir

Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs

halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi



Attachments

1. Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar - september 2025 2. Skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs með árshlutareikningi janúar - september 2025

Recommended Reading