Ísfélag hf. og Arion banki hf. hafa gert breytingar á fyrirliggjandi samningi um viðskiptavakt fyrir hlutabréf félagsins á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.
Samkvæmt samningnum skal Arion banki leggja fram, á hverjum viðskiptadegi Kauphallarinnar, bæði reglubundin og fyrirsjáanleg kaup- og sölutilboð í hlutabréf félagsins í viðskiptakerfi Kauphallarinnar, bæði áður en aðalmarkaður hennar opnar og á meðan viðskipti eiga sér þar stað.
Í samningnum er nú kveðið á um að Arion banki skuli leggja fram kaup- og sölutilboð sem varða að lágmarki 90.000 hluti í félaginu, á gengi sem Arion banki ákveður. Tilboðin skulu vera í tveimur pörtum þannig að verðbil kaup- og sölutilboða sem varða 85.500 hluti („A partur“) skal ákvarðað með hliðsjón af verðskrefatöflu Kauphallarinnar eins og hún er hverju sinni, á þann veg að verðbil verði sem næst 1,5% en þó ekki lægra en 1,45%. Verðbil kaup- og sölutilboða sem varða 4.500 hluti („B partur“) skal ákvarðað með hliðsjón af verðskrefatöflu Kauphallarinnar eins og hún er hverju sinni, á þann veg að verðbil verði ekki hærra en 1,50%. Þó skal Arion banka vera heimilt að setja fram kaup- og sölutilboð í bæði A part og B part með lægra verðbili en að framan greinir, t.d. vegna aðstæðna sem skapast vegna verðskrefatöflu Kauphallarinnar.
Þá er Arion banka ekki skylt til að leggja fram nýtt kaup- og sölutilboð fyrr en kaup- og sölutilboð í bæði A parti og B parti hafa verið tekin að fullu eða þau felld niður í heild.
Eigi Arion banki innan sama viðskiptadags viðskipti með hluti í félaginu, sem fara í gegnum veltubók Arion banka (markaðsvakt bankans), sem nema samtals 80 m.kr að markaðsvirði eða meira, falla niður framangreindar skyldur Arion banka um hámarksmun kaup- og sölutilboða innan þess dags. Ef verðbreyting á hlutabréfum útgefanda innan viðskiptadags er umfram 5% er Arion banka heimilt að tvöfalda framangreind verðbil og ef verðbreyting á hlutabréfunum er umfram 10% er Arion banka heimilt að þrefalda þau.
Breytingarnar taka gildi frá og með 16. desember 2025.
Nánari upplýsingar veitir Unnar Már Pétursson, fjármálastjóri Ísfélags hf., í síma 488 1100.