Eik fasteignafélag hf. (Eik) hefur endurnýjað samning sinn við Arion banka hf. (Arion) um viðskiptavakt á hlutabréfum útgefnum af félaginu sem skráð eru á aðalmarkað NASDAQ Iceland (Kauphöll).
Tilgangur samningsins er að efla viðskipti með hlutabréf Eikar í því skyni að markaðsverð skapist á þeim og verðmyndun verði með skilvirkum og gagnsæjum hætti.
Kaup- og sölutilboð skulu vera að lágmarki 1.000.000 hlutir að nafnvirði á gengi sem Arion ákveður hverju sinni. Tilboðin skulu lögð fram í tveimur hlutum. Annars vegar að minnsta kosti 50.000 hlutir með verðbili að hámarki 1,5% og hins vegar að lágmarki 950.000 hlutir með verðbili sem skal vera sem næst 1,5%, en ekki lægra en 1,45%. Arion er heimilt að tvöfalda hámarksverðbil ef verðbreyting innan viðskiptadags er umfram 5% og ef verðbreyting á hlutabréfunum er umfram 10% er Arion heimilt að þrefalda verðbilið.
Tilboð skulu miðast við verðskrefatöflu Kauphallarinnar. Arion er þó heimilt að setja fram tilboð með lægra verðbili ef sérstakar aðstæður skapast vegna verðskrefatöflunnar. Eigi Arion viðskipti með bréf félagsins samkvæmt samningnum fyrir 75.000.000 að markaðsvirði eða meira innan dags, falla niður skyldur um hámarksmun kaup- og sölutilboða innan þess dags.
Samningurinn er ótímabundinn og kemur til framkvæmda frá og með 19. desember 2025. Samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með 14 daga fyrirvara.
Nánari upplýsingar veitir Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármála og UT, á netfangið lydur@eik.is