Reginn hf. - Niðurstöður hluthafafundar 13. september 2018

Kopavogur, ICELAND


Hluthafafundur Regins hf. var haldinn klukkan 8:30, fimmtudaginn 13. september 2018 á skrifstofu félagsins, Hagasmára 1, 201 Kópavogi.

1. Tillaga stjórnar um skipan og fyrirkomulag tilnefningarnefndar fyrir félagið:
Hluthafafundur samþykkti skipan og fyrirkomulag tilnefningarnefndar fyrir félagið.

„Hluthafafundur Regins hf. þann 13. september 2018 samþykkir að koma á fót tilnefningarnefnd sem starfa skal samkvæmt starfsreglum nefndarinnar sem liggja fyrir sem fylgiskjal með tillögu þessari og skulu skoðast sem hluti hennar. Við kjör nefndarmanna tilnefningarnefndar í fyrsta skipti skulu nefndarmenn kosnir á hluthafafundi 13. september 2018 úr hópi þeirra sem gefið hafa kost á sér fyrir fundinn og skulu þeir kjörnir til aðalfundar 2020,en að öðru leyti skal farið eftir starfsreglum nefndarinnar eftir því sem við getur átt.“

Starfsreglur tilnefningarnefndar voru einnig samþykktar af hluthafafundi.

2. Tillögur stjórnar að breytingum á samþykktum félagsins:
Hluthafafundur samþykkti framlagðar breytingar á samþykktum félagsins.

Tillaga um nýja 22. gr. samþykkta

Við IV. kafla samþykkta félagsins skal bætast ný grein sem verður 22. gr. og skulu númer greina sem á eftir henni koma breytast í samræmi við það. Hin nýja grein skal vera svohljóðandi:

22. gr.

„Félagið skal hafa starfandi tilnefningarnefnd sem hefur það meginhlutverk að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu í félaginu á aðalfundi félagsins, eða eftir atvikum á hluthafafundi þar sem stjórnarkjör er á dagskrá.

Nefndarmenn tilnefningarnefndar skulu að lágmarki vera þrír og skulu þeir kjörnir til tveggja ára á aðalfundi félagsins. Nefndin skal vera sjálfstæð í störfum sínum og skulu stjórnarmenn félagsins ekki eiga sæti í nefndinni.

Formaður tilnefningarnefndar skal kjörinn af nefndinni sjálfri á fyrsta fundi eftir skipun.“

Viðbætur við 15. gr. samþykkta

Þær breytingar skulu gerðar á 15. gr. samþykkta félagsins að annars vegar verði bætt inn nýjum tölulið nr. 9 sem verði svohljóðandi: „Kosning nefndarmanna í tilnefningarnefnd, sé skipunartími nefndarmanna liðinn eða ef nefndarmaður hefur látið af störfum.“ Númer töluliða sem á eftir koma skulu taka breytingum til samræmis við þetta.

Hins vegar verði bætt við þann tölulið sem nú er nr. 9 orðunum „og til nefndarmanna tilnefningarnefndar“ á eftir orðinu „stjórnarmanna“.

Ákvæði 15. gr. samþykkta félagsins verður eftir breytinguna svohljóðandi:

„Á aðalfundi skulu tekin til afgreiðslu eftirfarandi mál:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins sl. starfsár

2. Ársreikningur fyrir liðið starfsár ásamt skýrslu endurskoðanda lagður fram til staðfestingar.

3. Ákvörðun um greiðslu arðs og meðferð hagnaðar eða taps á næstliðnu reikningsári.

4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu lögð fram til samþykktar.

5. Ákvörðun um heimild til stjórnar um kaup á eigin bréfum.

6. Tillögur til breytinga á samþykktum, ef einhverjar hafa borist.

7. Kosning félagsstjórnar.

8. Kosning endurskoðanda.

9. Kosning nefndarmanna í tilnefningarnefnd, sé skipunartími nefndarmanna liðinn eða ef nefndarmaður hefur látið af störfum.

10. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna og til nefndarmanna tilnefningarnefndar fyrir næsta kjörtímabil.

11. Önnur mál.“

3. Ákvörðun um þóknun tilnefningarnefndar:
Hluthafafundur samþykkti eftirfarandi þóknun vegna tilnefningarnefndar fram að næsta aðalfundi.
Formaður tilnefningarnefndar: 90.000 kr. á mánuði.
Aðrir nefndarmenn: 60.000 kr. á mánuði.

4. Kosning tilnefningarnefndar.
Eftirfarandi einstaklingar voru sjálfkjörin í tilnefningarnefnd til aðalfundar 2020.
Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir,
María Sólbergsdóttir,
Sigurjón Pálsson.

5. Önnur mál.