Frestur Eimskips til að gera athugasemdir við svonefnt „andmælaskjal 1“ sem Samkeppniseftirlitið sendi félaginu þann 6. júní í fyrra rennur út í dag. Í skjalinu „er lýst frummati Samkeppniseftirlitsins á þeim atvikum málsins þar sem rannsóknin er lengst komin. Að mati eftirlitsins er unnt að fjalla á þessu stigi sjálfstætt um þessi atvik málsins.“ Boðað var í skjalinu að Eimskip yrði „eins fljótt og unnt er“ sent andmælaskjal 2 þar sem fjallað yrði um önnur atvik málsins.
Telur Eimskip að af ákvæðum 17. gr. málsmeðferðarreglna Samkeppniseftirlitsins og eðli máls leiði að þegar það liggur fyrir að von sé á öðru andmælaskjali, þar sem nánar verði fjallað um sömu sakarefni fyrir sama tímabil, eigi aðili máls rétt á því að bregðast ekki við fyrra andmælaskjalinu fyrr en hið síðara liggur fyrir, sbr. þann yfirlýsta tilgang andmælaskjals að auðvelda aðila máls að nýta sér andmælarétt sinn.
Eimskip upplýsti því Samkeppniseftirlitið í dag um að félagið skili ekki athugasemdum við andmælaskjal 1, eins og til stóð að gera, fyrr en andmælaskjal 2 hefur verið afhent. Hvenær það gerist er ekki vitað á þessari stundu. Samkeppniseftirlitið hefur tjáð félaginu að ekki sé unnt að segja til um það hvenær vinnu við gerð andmælaskjals 2 ljúki, nú tæpu ári frá útgáfu andmælaskjals 1 og yfir 5 ½ ári frá húsleit.