Á stjórnarfundi þann 29. ágúst 2019 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutareikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 30. júní 2019.

Helstu atriði úr árshlutareikningi:

 • Hagnaður fyrir skatta nam 1.590 milljónum króna
 • Hagnaður eftir skatta nam 1.455 milljónum króna
 • Arðsemi eiginfjár var 23,2%
 • Hreinar rekstrartekjur námu 4.165 milljónum króna
 • Rekstrarkostnaður nam 2.658 milljónum króna
 • Heildareignir 30. júní 2019 námu 114.703 milljónum króna
 • Eigið fé samstæðunnar 30. júní 2019 nam 13.998 milljónum króna
 • Eiginfjárhlutfall (CAD) 30. júní 2019 var 24,6%
 • Lausafjárþekja (LCR) 30. júní 2019 var 193%
 • Heildareignir í stýringu námu 445 milljörðum króna í lok júní 2019
 • Starfsmenn í fullu starfi voru 124 í lok júní 2019
 • Hagnaður á hlut nam 0,79 krónum og þynntur hagnaður á hlut nam 0,68 krónum

Góð afkoma á fyrri árshelmingi 2019

Hagnaður Kviku fyrir skatta á fyrri árshelmingi 2019 nam 1.590 milljónum króna, samanborið við 1.056 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2018. Hagnaður eftir skatta á fyrri árshelmingi 2019 nam 1.455 milljónum króna, samanborið við 1.023 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2018. Arðsemi bankans var 23,2% og vel yfir markmiði bankans um 15% arðsemi.

Mikill vöxtur var í tekjum bankans á árinu en hreinar rekstrartekjur jukust um 37% á milli ára. Mestur var vöxturinn í þóknanatekjum en hreinar þóknanatekjur jukust um 52% á milli ára og voru 2.912 milljónir króna en megnið af aukningunni er tilkomin vegna aukinna umsvifa í eignastýringu. Hreinar vaxtatekjur námu 846 milljónum króna og jukust um 7%.

Fjárfestingatekjur jukust einnig nokkuð og námu 374 milljónum króna. Rekstrarkostnaður jókst um 34% á milli ára og nam 2.658 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Aukningin skýrist einkum af auknum umsvifum í rekstri eftir kaupin á GAMMA Capital Management hf.

Sterk lausafjárstaða

Lausafjárstaða bankans er áfram mjög sterk en lausafjárþekja bankans (LCR) var 193%, vel umfram 100% lágmarksþekju. Sjóður og innstæður í Seðlabanka og ríkisskuldabréf nema 38,3 milljörðum. Útlán til viðskiptavina námu 28,6 milljörðum króna og lækkuðu lítillega frá árslokum 2018. Hlutfall innlána af útlánum bankans er 203% í lok tímabilsins en var 163% í lok árs 2018.

Aukning innlána

Innlán viðskiptavina hafa aukist um 21% á árinu og námu 58,0 milljörðum króna í lok júní. Aukning innlána skýrist aðallega af nýrri innlánsleið bankans, Auði, sem var kynnt í mars.

Hátt eiginfjárhlutfall

Heildareignir samstæðu Kviku í lok júní 2019 námu 114,7 milljörðum króna og jukust um 30% frá árslokum 2018 þegar heildareignir námu 88,3 milljörðum. Eiginfjárhlutfall bankans í lok júní var 24,6% en hlutfallið var 25,4% fyrir áhrif áætlaðrar arðgreiðslu samkvæmt arðgreiðslustefnu bankans. Eiginfjárkrafa að viðbættum eiginfjáraukum er 20,75% og eiginfjárhlutfall bankans því langt umfram kröfur.

Afkomuspá hækkuð fyrir árið

Með hliðsjón af afkomu Kviku á fyrri árshelmingi 2019 og væntingum um rekstur á síðari árshelmingi hefur afkomuspá bankans verið uppfærð. Í upphaflegri afkomuspá bankans fyrir árið 2019 var gert ráð fyrir að afkoma fyrir skatta yrði 2,0 milljarðar króna. Í maí var afkomuspáin uppfærð og hækkuð í 2,7 milljarða króna.

Afkomuspá hefur nú verið uppfærð aftur og samkvæmt henni verður áætluð afkoma fyrir skatta 2,9 milljarðar króna á árinu 2019.

Hreinar rekstrartekjur eru áætlaðar 8,2 milljarðar, þar af 67% hreinar þóknanatekjur, 23% hreinar vaxtatekjur og 10% fjárfestingatekjur. Afkoma bankans getur vikið töluvert frá áætlun, m.a. vegna markaðsaðstæðna.

Bankinn hefur eignfært hluta af yfirfæranlegu skattalegu tapi sínu, að því marki sem líklegt er að það nýtist á móti reiknuðum tekjuskatti í framtíðinni, sem frestaða skatteign á efnahag sínum. Frestaða skatteignin verður endurmetin í árslok samhliða áætlunargerð fyrir næsta ár og ársuppgjöri bankans. Þar sem skattskyldir tekjustofnar bankans hafa aukist á árinu er líklegt að það komi til aukinnar eignfærslu á yfirfæranlegu tapi í árslok.

Endurkaupaáætlun samþykkt af stjórn

Stjórn bankans hefur ákveðið að nýta heimild sem samþykkt var á síðasta aðalfundi til að setja á reglubundna endurkaupaáætlun. Ákvörðun stjórnar felur í sér að heimilt er að kaupa allt að 50 milljónir hluta. Ákvörðun um endurkaupaáætlun er háð fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

Rekstur Kviku á fyrstu sex mánuðum ársins gekk vel og er afkoma umfram áætlanir. Rekstur bankans hefur gengið mun betur en rekstraráætlanir gerðu ráð fyrir og hefur það leitt til þess að afkomuspá bankans er hækkuð fyrir árið. Arðsemi hefur verið góð og hefur meðal annars leitt til þess að eiginfjárstaðan er sterk og langt umfram kröfur.

Sé tekið mið af horfum í rekstri Kviku og afkomuspá fyrir árið skapar sterk eigin- og lausafjárstaða mikið svigrúm. Nú þegar hefur aukin innkoma Kviku á einstaklingsmarkað aukið samkeppni. Aukin samkeppni fjölgar möguleikum fyrirtækja og almennings á fjármálamarkaði. Umhverfi fjármálafyrirtækja þróast ört með tæknibreytingum og við það skapast ný tækifæri til að þjónusta okkar viðskiptavini og ná fram frekari ábata í rekstri.

Nánari upplýsingar veitir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku í síma 540 3200.

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hlutahafa verður haldinn í höfuðstöðvum Kviku, Borgartúni 25, föstudaginn 30. ágúst nk. kl. 8:30.


Viðhengi