Eimskip hefur verið með tvö 2150 TEUS gámaskip í smíðum í Kína, Brúarfoss og Dettifoss. Smíði á fyrra skipinu, Brúarfossi, er langt komin og til stóð að fara í prufusiglingu í næstu viku. Við undirbúning þeirrar siglingar kom upp bilun í búnaði skipsins sem mun hafa áhrif á afhendingu til seinkunnar. Um er að ræða ásrafal sem brann yfir við prufukeyrslu. Ásrafallinn er evrópskur búnaður og fyrir liggur að smíða þarf nýjan sem og að koma honum fyrir í skipinu sem er tæknilega flókin aðgerð. Vegna þessa er áætluð seinkun á afhendingu skipsins um allt að 6-8 mánuði.
Gert er ráð fyrir að afhending á hinu skipinu, Dettifossi, verði á seinni hluta fyrsta ársfjórðungs 2020.
Skipin tvö sem félagið er með í smíðum er liður í því að hefja samstarf um samsiglingar við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line. Þessi seinkun mun hafa áhrif á hvenær samstarfið getur hafist en þó er unnið að því að félögin geti hafið samstarfið snemma á öðrum ársfjórðungi 2020, í stað fyrsta ársfjórðungs eins og áður hefur verið kynnt. Verður það gert með því að leita leiða til að leigja tímabundið inn skip í staðinn fyrir Brúarfoss.
Eimskip mun ekki bera kostnað við nýjan rafal og mun fara í viðræður við skipasmíðastöðina um framhaldið, m.a. tafabætur eins og kveðið er á um í samningum. Tilkynnt verður um niðurstöður þegar þær liggja fyrir.
Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttur, markaðs- og samskiptastjóri í síma 825-3399 eða investors@eimskip.is