Eimskip: Landsréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms


Vísað er til fréttar frá 30. júní sl. um kröfur Eimskips vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins.

Kröfur Eimskips í málinu eru tvíþættar: Annars vegar að rannsókn Samkeppniseftirlitsins verði úrskurðuð ólögmæt og að henni skuli hætt. Hins vegar að haldi allra þeirra gagna sem eftirlitið tók í tveimur húsleitum verði aflétt og afritum þeirra eytt.

Samkeppniseftirlitið krafðist þess að báðum kröfunum yrði vísað frá héraðsdómi. Þann 10. október sl. féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á frávísunarkröfu Samkeppniseftirlitsins á fyrrnefndu kröfunni en hafnaði því að vísa þeirri síðarnefndu frá dómi.

Eimskip kærði til Landsréttar þá niðurstöðu héraðsdóms að vísa frá kröfu félagsins um ólögmæti rannsóknar Samkeppniseftirlitsins. Með úrskurði í dag staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms um frávísun þess hluta málsins.

Eftir stendur þá krafa Eimskips um að haldi allra þeirra gagna sem Samkeppniseftirlitið tók í tveimur húsleitum verði aflétt og afritum þeirra eytt. Byggir sú krafa á öllum sömu röksemdum og krafan um ólögmæti rannsóknarinnar og má vænta þess að héraðsdómur taki hana til efnislegrar meðferðar á næstu misserum.

Eimskip mun meta réttarstöðu sína í kjölfar þessa úrskurðar.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir,  markaðs- og samskiptastjóri í síma 825-3399 eða investors@eimskip.is

Recommended Reading