Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir fjórða ársfjórðung 2019 lítur út fyrir að EBITDA afkoma Eimskips fyrir árið 2019 verði lakari en stjórnendur gerðu ráð fyrir. Áætlað er að afkoman verði um 49 - 50 milljónir evra en til samanburðar var uppfærð EBITDA spá félagsins fyrir árið 2019 52 - 55 milljónir evra.
Helstu ástæður fyrir lægri EBITDA afkomu eru minna magn í gámasiglingakerfi félagsins sem var um 10% lægra á fjórða ársfjórðungi miðað við sama tíma árið á undan og varð sú minnkun að megninu til á síðustu vikum ársins. Skýringar má helst rekja til minni innflutnings til Íslands en búist var við og minni veiða við Ísland á tímabilinu sem leiddi til mun minni útflutnings auk neikvæðra áhrifa á umsvif í akstri innanlands. Þannig má nefna að landaður afli í október og nóvember samkvæmt gögnum Fiskistofu var um 19% og 29% lægri en í sömu mánuðum árið áður sem hafði neikvæð áhrif á útflutning í nóvember og desember.
Þar að auki reyndist einskiptis kostnaður vegna lokunar skrifstofu félagsins í Belgíu hærri en gert var ráð fyrir og þá féll til töluverður kostnaður þegar að Eimskip færði viðkomur til nýs þjónustuaðila í Rotterdam fyrr en áætlað var vegna lokunar og verkfalla hjá þáverandi þjónustuaðila. Tilfærslan var áður áætluð á fyrsta ársfjórðungi 2020.
Félagið hefur staðið í ýmsum hagræðingaraðgerðum undanfarið ár og m.a. breytt gámasiglingakerfinu með það fyrir augum að bregðast við minna innflutningsmagni. Þær aðgerðir eru að skila sér en vega ekki nægilega á móti sveiflum í magni eins og raunin varð á síðustu vikum ársins.
Ofangreindar tölur taka ekki tillit til áhrifa reikningsskila staðals IFRS16 á EBITDA afkomu.
Félagið vinnur enn að uppgjöri ársfjórðungsins og ársins 2019 og afkoman getur tekið breytingum í uppgjörsferlinu.
Afkoma félagsins fyrir fjórða ársfjórðung og árið 2019 verður kynnt þann 27. febrúar.
Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri í síma 825-3399 eða investors@eimskip.is