EIMSKIP: Upplýsingar varðandi afkomu annars ársfjórðungs


Samkvæmt drögum að árshlutauppgjöri fyrir annan ársfjórðung 2020 lítur út fyrir að EBITDA sé um 16 milljónir evra samanborið við 15,8 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs. Að teknu tilliti til gjaldfærðs uppsagnarkostnaðar á fjórðungnum væri afkoman um 17 milljónir evra eða um 8% hærri en á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. 

Þær hagræðingaraðgerðir sem félagið hefur ráðist í á undanförnum misserum t.d. fækkun stöðugilda og breytingar á siglingakerfi eru að bera árangur og vógu á móti almennum samdrætti í vöruflutningum á fjórðungnum.

Áhrif COVID-19 faraldursins á alþjóðahagkerfið, þar með talið landanna við Norður-Atlantshaf þar sem lykilmarkaður félagsins er, eru óljós fyrir komandi mánuði.  

Eimskip birtir uppgjör annars ársfjórðungs 2020 eftir lokun markaða fimmtudaginn 27. ágúst.

Eimskip býður fjárfestum og markaðsaðilum til rafræns fundar þar sem Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri mun kynna uppgjör fjórðungsins. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 28. ágúst kl. 8:30 og í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu verður hann eingöngu sendur út gegnum fjárfestasíðu félagsins www.eimskip.com/investors. Þar verður útbúinn sérstakur hlekkur áður en fundur hefst.

Fjárfestum er velkomið að senda spurningar fyrir kl. 8:00 á föstudagsmorgun á netfangið investors@eimskip.com merkt fjárfestafundur.

Upptaka verður einnig aðgengileg á fjárfestasíðunni að fundi loknum.

Uppgjörsgögn verður hægt að nálgast eftir fundinn á fjárfestasíðu Eimskips, www.eimskip.is/investors

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is.