Niðurstöður yfirtökutilboðs Samherja Holding ehf. til hluthafa Eimskipafélags Íslands hf.


Þann 10. nóvember 2020 gerði Samherji Holding ehf. hluthöfum Eimskipafélags Íslands hf. yfirtökutilboð, í samræmi við ákvæði X. og XI. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, með þeim skilmálum og skilyrðum sem fram komu í opinberu tilboðsyfirliti dagsettu þann sama dag. Gildistími yfirtökutilboðsins var til kl. 17:00 þann 8. desember 2020. Hluthafar sem áttu samtals 20.175 hluti í Eimskipafélagi Íslands hf. tóku tilboðinu, eða sem nemur 0,011% hlutafjár í félaginu.

Samherji Holding ehf. fór með atkvæðisrétt 56.630.000 hluta í Eimskip eða sem nemur 30,28% atkvæða í félaginu fyrir tilboðið og mun fara með 30,29% atkvæða við uppgjör viðskipta eða 31,32% atkvæða þegar leiðrétt hefur verið fyrir eigin hlutum. Beljandi ehf. og Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hf. voru umsjónaraðilar yfirtökutilboðsins fyrir hönd Samherja Holding ehf. Greiðsla verður innt af hendi til þeirra tilboðshafa sem samþykktu tilboðið eigi síðar en fimm (5) viðskiptadögum eftir lok gildistíma tilboðsins.

„Þegar Samherji Holding jók hlut sinn í Eimskip í síðasta mánuði vildi félagið ljúka tilboðsskyldu gagnvart öðrum hluthöfum Eimskips sem undanþága fékkst fyrir í mars á þessu ári. Kaupin endurspegla þá tiltrú sem við höfum á rekstri Eimskips og þær væntingar sem við höfum til félagsins. Það er ánægjulegt að mikill meirihluti hluthafa Eimskips deilir þeirri sýn með okkur. Það var og verður áfram afstaða Samherja Holding að Eimskip sé vel til þess fallið að vera áfram skráð á almennan hlutabréfamarkað og við bindum vonir við að eiga áfram gott samstarf við aðra hluthafa félagsins,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja Holding ehf.