Uppgjör Síldarvinnslunnar fyrir fjórða ársfjórðung og árið 2021


Uppgjör Síldarvinnslunnar fyrir fjórða ársfjórðung og árið 2021

Starfsemin á árinu

  • Loðnuveiðar voru leyfðar aftur og þrátt fyrir lítinn loðnukvóta á vertíðinni tókst vel að hámarka verðmæti hans. Þessu var svo fylgt eftir með mikilli úthlutun fyrir yfirstandandi vertíð sem kallaði á stórar ákvarðanir.
  • Veiðar og vinnsla á síld og makríl gengu vel á árinu. Aukning var í nýtingu íslensku síldarinnar til manneldis.
  • Markaðsskilyrði voru hagstæð og vel tókst að selja afurðir.
  • Bolfiskmarkaðir hafa verið að styrkjast. Veiðar og vinnsla á bolfiski gengu vel.
  • Félagið var skráð á markað. Hluthöfum fjölgaði og voru yfir 4000 í árslok.
  • Fjárfestingar voru töluverðar. Bergur ehf. varð hluti af samstæðunni, nýr Börkur kom um mitt ár og uppbygging fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað hófst.
  • Framleiðslumet var sett í uppsjávarfrystihúsinu á árinu.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri fjórða ársfjórðungs og ársins

  • Rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi voru 65,8m USD og 237,2m USD á árinu 2021
  • EBITDA á fjórða ársfjórðungi var 24,9m USD og 84,6m USD á árinu 2021.
  • Hagnaður fjórða ársfjórðungs var 17,4m USD en 87,4 USD á árinu 2021. Þess ber að geta að 23,6m USD voru vegna söluhagnaðar sem myndaðist við afhendingu SVN eignafélags til hluthafa.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok ársins 2021 námu 634,2m USD og eiginfjárhlutfall var 67%.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á fjórða ársfjórðungi voru 65,8m USD og 237,2m USD á árinu 2021. Árið 2020 voru tekjurnar 46,3m USD á fjórða ársfjórðungi og 179,4m USD á árinu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi var 24,9m USD eða 37,8% af rekstrartekjum, en á fjórða ársfjórðungi árið 2020 var EBITDA 14,1m USD eða 30,4% af rekstrartekjum. Á árinu 2021 var EBITDA 84,6m USD eða 35,7% af rekstrartekjum. Til samanburðar var hún 59,1m USD á árinu 2020 eða 32,9% af rekstrartekjum.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 23,3m USD á fjórða ársfjórðungi og 103,7m USD á árinu 2021 samanborið við 17,1m USD á fjórða ársfjórðungi 2020 og 48,0m USD á árinu 2020. Tekjuskattur var 5,9m USD á fjórða ársfjórðungi og 16,3m USD á árinu 2021.

Hagnaður fjórða ársfjórðungs 2021 nam 17,4m USD og 87,4m USD á árinu 2021 samanborið við hagnað upp á 13,8m USD á fjórða ársfjórðungi 2020 og 39,3m USD á árinu 2020.

Efnahagur

Heildareignir námu 634,2m USD í lok árs 2021. Þar af voru fastafjármunir 472,4m USD og veltufjármunir 161,7m USD.

Aukning á veltufjármunum á árinu 2021 skýrist helst með auknum birgðum og kröfum upp á 16,2m USD en á móti hefur handbært fé lækkað sem nemur 10,0m USD. Aukning fastafjármuna stafa að stærstum hluta vegna kaupa á öllu hlutafé í Bergi ehf. og þá hefur nýr Börkur verið eignfærður á meðal varanlegra rekstrarfjármuna. Þá var SVN eignafélag, sem heldur utan um eignarhald í hlutabréfunum í Sjóvá, fært út úr hlutdeildarfélögum þar sem það félag hefur verið afhent hluthöfum.

Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 422,5m USD. Eiginfjárhlutfall var 67% í lok árs 2021 samanborið við 68% í lok árs 2020.

Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins voru 211,6m USD í lok árs og hækkuðu um 27,8m USD á milli áranna. Vaxtaberandi skuldir voru 123,2m USD í lok árs og hækkuðu um 7,3m USD frá síðasta ári.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 62,5m USD í lok árs 2021 en var 63,3m USD í lok árs 2020. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 88,9m USD á árinu 2021. Skýrast þær helst af kaupunum á Bergi ehf. og smíði á nýjum Berki. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 16,4m USD og handbært fé í lok árs nam 79,8m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á árinu 2021

Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársins 2021 reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi ársins (1 USD=127,05 kr) voru rekstrartekjur 30,1 milljarðar, EBITDA 10,7 milljarðar og hagnaður 11,1 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 31. desember 2021 (1 USD=130,38 kr) voru eignir samtals 82,7 milljarðar, skuldir 27,6 milljarðar og eigið fé 55,1 milljarðar.

Samþykkt ársuppgjörs

Ársuppgjör 2021 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 10. mars 2022. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Arður

Stjórn Síldarvinnslunnar hf. leggur til við aðalfund að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2021 samkvæmt arðgreiðslustefnu félagsins. Arðgreiðsla til hluthafa nemi 30% hagnaðar ársins eða 3.417 millj. króna (um 26,2 millj. USD miðað við lokagengi ársins 2021). Arðgreiðslan nemur 2,01 kr. á hlut.

Kynningarfundur 10. mars 2022

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 10. mars klukkan 16:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á youtube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ. Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið fjarfestir@svn.is og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Reksturinn var mjög góður á árinu og á fjórða ársfjórðungi var starfsemin umfangsmikil með tilkomu loðnuveiða. Nær samfleytt frá miðjum júní var unnið á 12 tíma vöktum í fiskiðjuveri fyrirtækisins við manneldisvinnslu. Það mæddi mikið á öllum starfsmönnum félagsins.

Veiðar á makríl voru þyngri en í fyrra en áframhaldandi veiðisamstarf gerði skipunum kleift að ná kvótum og hámarka verðmæti miðað við ástand fisksins. Norsk-íslenska síldin hélt sig hér við landið. Vel gekk að veiða hana og gæði fisksins voru mikil. Bolfiskveiðar gengu vel.

Markaðir fyrir framleiðsluvörur félagsins eru almennt sterkir um þessar mundir og eftirspurn góð. Vel hefur gengið að losa afurðir. Þetta endurspeglar þau verðmæti sem felast í íslensku sjávarfangi og mikilvægi þess að við höldum áfram þeirri vegferð að vinna að aukinni verðmætasköpun og nýtingu með sjálfbærum hætti.

Óvænt loðnuráðgjöf á haustmánuðum kallaði á að teknar yrðu stórar ákvarðanir til að freista þess að ná að vinna þann kvóta sem gefinn var út. Haustveiðar voru á loðnu í fyrsta sinn í mörg ár.

Efnahagur félagsins er sterkur og er það trú okkar að sjávarútvegsfyrirtæki eins og okkar eigi að hafa sterkan efnahag svo unnt sé að takast á við þær sveiflur sem einkennt geta íslenskan sjávarútveg og gera okkur kleift að mæta áskorunum eins og birtast núna með hörmungunum í Úkraínu.

Lykillinn að góðum árangri félagsins er öflugt starfsfólk sem hefur lagt mikið á sig í störfum á árinu til að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Það er búið að mæða mikið á starfsfólkinu; vertíðir hafa verið langar, miklar fjárfestingar, félagið skráð á markað og ný félög bæst í samstæðuna. Auk þess höfum við ekki farið varhluta af Covid sem hefur haft verulega aukið álag á starfsfólk og starfsemina.   Starfsfólkið hefur lagt sig fram á öllum vígstöðvum og staðið sig með mikilli prýði og sýnt mikla samstöðu.

Fjárhagsdagatal

Aðalfundur 2022 – 31. mars 2022
Arðgreiðsludagur – 13. apríl 2022
1. Ársfjórðungur 2022 – 25. maí 2022
2. Ársfjórðungur 2022 – 25. ágúst 2022
3. Ársfjórðungur 2022 – 24. nóvember 2022
Ársuppgjör 2022 – 9. mars 2023

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri

Viðhengi



Attachments

Síldarvinnslan hf. - Uppgjörskynning 4. ársfj. 2021 SVN samstæða - ársreikningur 2021 birtingar 549300AMNBYFRNGJ9J24-2021-12-31-is 549300AMNBYFRNGJ9J24-2021-12-31-is.zip-viewer