Síldarvinnslan hf. – Niðurstöður aðalfundar 2023. Útgáfa samfélagsskýrslu 2022


Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn í Safnahúsinu í Neskaupstað 18. apríl 2023. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum fundarins.

Ársreikningur

Aðalfundur samþykkti ársreikning félagsins.

Tillaga um greiðslu arðs

Samþykkt var að arðgreiðsla á árinu 2023 vegna rekstrarársins 2022 verði 1,86 kr. á hlut eða 3.437 milljónir kr. (um 24,2 milljónir USD á lokagengi ársins 2022). Arðurinn verður greiddur 26. apríl 2023. Réttur hluthafa til arðgreiðslu miðast við hlutaskrá 21. apríl 2022.

Tillaga um starfskjarastefnu

Tillaga að starfskjarastefnu var lögð fram óbreytt og var hún samþykkt.

Ákvörðun um þóknun til stjórnar félagsins

Samþykkt var að stjórnarlaun vegna ársins 2023 verði sem hér segir: Formaður verði með kr. 570.000 á mánuði en aðrir stjórnarmenn með 380.000. Varamenn verði með kr. 190.000 á mánuði.

Kosning stjórnar félagsins

Í stjórn félagsins voru kjörin: Anna Guðmundsdóttir, Baldur Már Helgason, Erla Ósk Pétursdóttir, Guðmundur Rafnkell Gíslason og Þorsteinn Már Baldursson. Varamenn: Arna Bryndís Baldvins McClure og Ingi Jóhann Guðmundsson. Samsetning stjórnar uppfyllir ákvæði laga og samþykkta félagsins um kynjahlutfall. Björk Þórarinsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn og voru henni þökkuð vel unnin störf en hún hefur setið í stjórn frá árinu 2013.

Kosning endurskoðenda

Samþykkt var að endurskoðandi félagsins fyrir næsta ár verði PricewaterhouseCoopers (Vignir Rafn Gíslason).

Tillaga um heimild stjórnar til kaupa á eigin bréfum

Aðalfundur samþykkti að veita stjórn félagsins heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimildin gildir fyrir næstu átján mánuði en heildareign í eigin bréfum má ekki fara yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupgengi má ekki vera hærra en í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem hærra er. Heimild þessa má nýta til að koma á formlegri endurkaupaáætlun eða til þess að gera hluhöfum almennt tilboð um kaup á eigin bréfum til dæmis með útboðsfyrirkomulagi enda sé jafnræðis hluthafa gætt við boð um þátttöku í slíkum viðskiptum. Aðrar heimildir til kaupa á eigin bréfum falla úr gildi með þessari samþykkt.


Samfélagsskýrsla Síldarvinnslunnar 2022

Samhliða aðalfundi sínum í dag hefur Síldarvinnslan gefið út samfélagsskýrslu fyrir árið 2022, en fundinum og útgáfu skýrslunnar var frestað um nokkrar vikur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað í mars. Útgáfa samfélagsskýrslu er mikilvægur liður í upplýsingagjöf Síldarvinnslunnar til samfélagsins og fjárfesta um ófjárhagslega þætti í starfsemi félagsins. Í skýrslunni er meðal annars að finna nákvæmt umhverfisbókhald samstæðunnar sem og ýmsar aðrar upplýsingar. Meðal annars er fjallað um helstu nýsköpunar- og samfélagsverkefni sem félagið vann að á árinu 2022.

Upplýsingar í skýrslunni ná utan um Síldarvinnsluna og dótturfélög á Íslandi, með þeirri undantekningu að erlend dótturfélög Vísis eru undanskilin. Þrátt fyrir að kaup Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi í Grindavík hafi gengið í gegn undir lok árs 2022 taka gögn og útreikningar sem birt eru í skýrslunni mið af starfsemi Vísis allt árið 2022. Kaflaskipting og skipulag skýrslunnar tekur mið af leiðbeiningum frá Nasdaq Ísland kauphöllinni um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja með sérstakri áherslu á sjálfbærni.. Við gerð skýrslunnar var einnig horft til þeirra áhersluatriða sem felast í sjálfbærnistefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:

„Markmið okkar með útgáfu samfélagsskýrslu er að auka gagnsæi um starfsemi félagsins og tryggja að allar ófjárhagslegar upplýsingar um hana séu aðgengilegar. Við erum nú að gefa út samfélagsskýrslu fjórða árið í röð og hefur hún þróast stöðugt á þeim tíma. Meðal annars veitir skýrslan betra og aðgengilegra yfirlit um starfsemi Síldarvinnslunnar. Sömuleiðis stuðlar útgáfa hennar að vönduðum og ábyrgum vinnubrögðum innan félagsins. Í gegnum tíðina höfum við notið þeirrar gæfu að hafa öflugt og metnaðarfullt starfsfólk í vinnu hjá okkur. Í þessari skýrslu höfum við lagt sérstaka áherslu á okkar mannauð og viljum veita innsýn í þau fjölbreytilegu störf sem starfsfólk fæst við frá degi til dags á starfsstöðvum okkar um allt land.

„Síldarvinnslan vill vera í fararbroddi á sviði samfélagslegrar ábyrgðar, taka þátt í uppbyggingu þeirra samfélaga sem hún starfar í og vill lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfsemi sinni. Til að draga úr kolefnisspori starfseminnar höfum við fjárfest í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna okkar. Það voru því mikil vonbrigði að við skyldum ekki fá rafmagn til þeirra fyrstu þrjá mánuði ársins 2022, vegna þess að ekki var til staðar næg raforka í landinu. Þetta leiddi til aukinnar olíunotkunar í verksmiðjum Síldarvinnslunnar og það kemur fram í umhverfisbókhaldi félagsins fyrir árið 2022. Við teljum mikilvægt að nýta grænar orkuauðlindir Íslands til að ná markmiðum þjóðarinnar í orkuskiptum.“

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason forstjóri í síma 470 7000.

Viðhengi



Attachments

SVN_Samfelagsskyrsla_2022