Síldarvinnslan: Uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2023



  • Góð en sveiflukennd loðnuvertíð
  • Mikið framleitt af loðnuafurðum
  • Vísir kominn í samstæðuna
  • Bolfiskveiðar og vinnsla hafa gengið vel
  • Mikil framleiðsla á ársfjórðungnum og birgðastaða há

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Hagnaður tímabilsins var 29,5m USD
  • Rekstrartekjur voru 131,5m USD og hækkuðu um 30,9m USD frá sama tímabili í fyrra.
  • EBITDA var 39,6m USD eða 30,1%.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 1.108,6m USD og eiginfjárhlutfall var 55%.

Rekstur

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 131,5m USD samanborið við 100,6m USD á sama tímabili í fyrra. Rekstratekjur jukust þannig um 30,9m USD eða um 31% á milli tímabilanna. Tekjuaukningin skýrist af því að rekstur Vísis ehf. er inni í tölum fyrsta ársfjórðungs eða 27,4m USD. Rekstarhagnaður eykst um 2,0m USD á milli tímabilanna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 39,6m USD eða 30,1% af rekstrartekjum, en var 32,5m USD eða 32,3% á fyrsta ársfjórðungi 2022. Þess má geta að mikil framleiðsla var á fyrsta ársfjórðungi, af loðnuafurðum og er birgðastaða há, eru birgðirnar metnar á kostnaðarverði.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 36,4m USD samanborið við 34,9m USD á fyrsta fjórðungi 2022. Tekjuskattur var 6,9m USD og hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2023 því 29,5m USD samanborið við 27,5m USD hagnað fyrsta fjórðungs 2022.

Efnahagur

Heildareignir námu 1.108,6m USD í lok mars 2023. Þar af voru fastafjármunir 873,2m USD og veltufjármunir 235,4m USD.

Aukning á veltufjármunum á tímabilinu skýrist helst með auknum birgðum og kröfum upp á 33,0m USD.

Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 608,9m USD. Eiginfjárhlutfall var 55% í lok tímabilsins eða það sama og í lok árs 2022.

Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins voru 499,6m USD og hækkuðu um 25,1m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 321,3m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 4,4m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 24,0m USD á fyrsta ársfjórðungi 2023 en var 8,2m USD á fyrsta fjórðungi 2022. Fjármögnunarhreyfingar voru 6,5m USD og handbært fé í lok tímabilsins nam 88,2m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrsta ársfjórðungi 2023

Séu niðurstöður rekstrarreiknings tímabilsins reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi þess (1 USD=141,94 kr) voru rekstrartekjur 18,7 milljarðar, EBITDA 5,6 milljarðar og hagnaður 4,2 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 31. mars 2023 (1 USD=136,37 kr) voru eignir samtals 151,2 milljarðar, skuldir 68,1 milljarðar og eigið fé 83,1 milljarðar.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs 2023 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 25. maí 2023. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 25. maí 2023

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi miðvikudaginn 25. maí klukkan 16:15. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á youtube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið fjarfestir@svn.is og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Við erum að skila góðum rekstri á fjórðungnum, enn og aftur kom loðnan okkur í opna skjöldu með sveiflum í ráðgjöf, þar sem erfitt var að áætla nýtingu hennar. Bolfiskveiðar og vinnsla eru mun umfangsmeiri en áður með tilkomu Vísis í samstæðuna og gekk vel þar á fjórðungnum.

        Þar sem óvissa ríkti um loðnukvóta fram á síðasta hluta vertíðarinnar atvikaðist það þannig að mun meira var framleitt af hrognum en í venjulegu ári. Í mínum huga hefði verið framleitt minna og við náð meiri verðmætum út úr vertíðinni ef kvótar hefðu legið fyrir fyrr. Það er alveg ljóst að miklar fjárfestingar í skipum og vinnslum í landi gerðu það að verkum að loðnukvótinn náðist.

Bolfiskhlutinn gekk vel á fjórðungnum, þar hafa aflabrögð verið góð og vinnslurnar gengið vel.

Markaðir fyrir uppsjávarafurðir líta þokkalega út, sala loðnuafurða að undanskildum loðnuhrognum hefur gengið vel. Framleiðsla loðnuhrogna var langt umfram það sem markaðurinn tekur við og ljóst að einhvern tíma mun taka að selja hrognin. Einhverjir framleiðendur fóru út í markaðinn með verð sem er 1/3 af verðum síðasta árs og þar við situr í dag. En það er ljóst að eftirspurn er ekki í beinu samhengi við verð.

Í bolfiskinum hafa verð aðeins gefið eftir en góð hreyfing er á flestum afurðum. Sjófrystar hafa gefið eftir einkum inná Bretland, ferskar afurðir hafa gengið vel og gott útlit og sterk verð á saltfiskmörkuðum.

Heilt yfir má segja að þær fjárfestingar sem við höfum verið í með stækkun fiskimjölsverksmiðjunnar, byggja upp hrognavinnsluna, stærri og öflugri skip hafi skipt sköpum á fjórðungnum.

Aflabrögð bolfiskskipanna hafa verið góð, þannig hefur afli hjá línubátunum sjaldan verið betri en í vetur, eyjaskipin hafa ekki verið í fullri nýtingu vegna samdráttar í kvótum. Gullver tók þátt í togararallinu í mars mánuði.

Álag hefur verið á starfsfólki og þá sérstaklega í uppsjávarvinnslunum í landi þar sem vertíðin var löng, bræðslurnar keyrðu frá byrjun árs stanslaust fram að páskum, vertíðin í uppsjávarfrystihúsinu var að sama skapi löng, hrognavinnslan var í gangi hjá okkur stöðugt í 20 daga.

Það eru vissulega blikur á lofti í efnahagsmálum á mörgum að okkar helstu markaðssvæðum, sem skapar þrýsting á eftirspurn og verð. Vextir í heiminum eru hækkandi. Ljóst er að við erum að sjá kostnað af lánum félagsins hækka. Ennfremur er stríðið í Úkráínu stöðug ógn sem ómögulegt er að spá fyrir um hvert mun leiða.

Íslenska krónan mun verða fyrir þrýstingi þar sem við erum að sjá mikið innflæði frá ferðamönnum, á sama tíma og vextir eru orðnir mjög háir.

Við bíðum spennt eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem mun koma í byrjun júní, en þar liggur fyrir að vísitölur okkar helstu stofna eru á uppleið og full ástæða til bjartsýni, sérstaklega með þorsk og ýsustofninn.

Fjárhagsdagatal
2. Ársfjórðungur 2023 – 24. ágúst 2023
3. Ársfjórðungur 2023 – 23. nóvember 2023
Ársuppgjör 2023 – 7 mars 2024

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri

Viðhengi



Attachments

SVN samstæða - árshlutareikning Q1 2023 (loka) Síldarvinnslan hf. - Uppgjörskynning 1. ársfj. 2023 (loka)