Landsbankinn hf.: Landsbankinn fær lán frá Norræna fjárfestingarbankanum


Landsbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hafa undirritað samning um að NIB láni Landsbankanum 75 milljónir Bandaríkjadala til sjö ára. Lánasamningnum er ætlað að fjármagna lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi og verkefni sem tengjast umhverfismálum.

Um er að ræða fimmta lánasamninginn sem NIB gerir við Landsbankann, nú síðast í tengslum við BREEAM-vottaða nýbyggingu bankans við Reykjastræti í Reykjavík.

NIB er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarríkja: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar bæði til verkefna í opinbera og einkageiranum jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. Lánshæfismatseinkunn NIB er AAA/Aaa frá S&P Global og Moody’s.