- Róbert Wessman heldur áfram sem starfandi stjórnarformaður
- Lisa Graver tekur við stöðu forstjóra
Alvotech (NASDAQ: ALVO, ALVO SDB) tilkynnti í dag breytingar á yfirstjórn félagsins sem eru fram undan að lokinni vinnu stjórnar sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið. Róbert Wessman hefur gegnt bæði starfi stjórnarformanns frá stofnun félagsins árið 2013 og starfi forstjóra síðan í ársbyrjun 2023. Í lok fyrsta árfjórðungs þessa árs mun Róbert vera starfandi stjórnarformaður í fullu starfi og Lisa Graver taka við sem forstjóri félagsins.
„Þegar ég tók að mér starf forstjóra í ársbyrjun 2023, var ætlunin að styrkja daglegan rekstur og undirbúa félagið vel undir nýtt tímabil í sögu þess. Það var ekki markmiðið að hafa hlutverk stjórnarformanns og forstjóra á einni hendi til langs tíma. Ég hef unnið í töluverðan tíma með stjórn félagsins að því að finna nýjan forstjóra. Við erum nú að hefja nýjan áfanga í þróun félagsins, með vaxandi úrvali lyfja á markaði og aukinni útbreiðslu. Afar mikilvægt er að stjórnendur félagsins búi á Íslandi þar sem helstu þættir framleiðslunnar fara fram. Lisa hefur verið traustur samstarfsfélagi minn í meira en 20 ár. Hún er með verðmæta leiðtogareynslu og djúpa þekkingu á þessum iðnaði. Lisa nýtur óskoraðs trausts stjórnar félagsins til að leiða áframhaldandi uppbyggingu Alvotech, sem hvílir á afar sterkum grunni,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.
„Sem starfandi stjórnarformaður og stærsti hluthafi félagsins mun ég áfram einbeita mér af alefli að því að tryggja velgengni félagsins. Ég ætla að beina kröftum mínum að stefnumótun, viðskiptaþróun, vali á næstu verkefnum í lyfjaþróun, samskiptum við alþjóðlega fjárfesta og góðum stjórnarháttum. Við höfum byggt upp lyfjaþróun á heimsmælikvarða, frábæra framleiðsluaðstöðu og erum með 30 lyf í þróun, sem er eitt verðmætasta safn lyfja í þróun í okkar geira. Nú eru fimm fyrstu hliðstæðurnar komnar á markað. Ég er ótrúlega spenntur fyrir þeim miklu tækifærum sem fram undan eru hjá Alvotech,“ sagði Róbert.
„Mér er það mikill heiður að fá tækifæri til þess að gegna stöðu forstjóra Alvotech, á þessum mikilvæga tíma í sögu félagsins. Alvotech hefur byggt upp fullkomna aðstöðu til lyfjaþróunar og -framleiðslu, félagið er með skýra stefnu, frábæra menningu og úrvals starfsfólk. Ég hef dvalið langdvölum á Íslandi undanfarna tvo áratugi og er full tilhlökkunar til þess að flytjast til landsins og vinna náið með leiðtogateyminu og öðru samstarfsfólki við að halda áfram að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum áformum félagsins um aukinn vöxt á næstu árum,“ sagði Lisa Graver, tilvonandi forstjóri Alvotech.
Lisa Graver er með yfirgripsmikla leiðtoga- og rekstrarreynslu í lyfjageiranum og hefur starfað með Róberti Wessman í meira en 20 ár. Hún var forstjóri Alvogen í Bandaríkjunum þar til félagið var selt til Lotus Pharmaceuticals í desember sl. Hún hefur setið í stjórn Alvotech frá því að félagið var skráð á markað í Bandaríkjunum í júní 2022.
Róbert og Lisa munu vinna með leiðtogateymi félagsins á næstu mánuðum að því að tryggja að breytingarnar gangi vel. Lisa mun ganga úr stjórn Alvotech þegar hún tekur formlega við forstjórastarfinu.
Nánari upplýsingar um Lisu Graver
Lisa Graver er reyndur stjórnandi í lyfjageiranum með yfir 25 ára reynslu sem leiðtogi í rekstri fyrirtækja sem þróa og framleiða sérhæfð samheitalyf, líftæknilyfjahliðstæður og frumlyf. Hún hefur gegnt leiðtogastöðum á sviði sölu, reksturs og stefnumótun. Hún var síðast forstjóri Alvogen í Bandaríkjunum þar sem hún bar ábyrgð á vexti félagsins sem lauk með sölu þess til Lotus Pharmaceutical. Lisa hefur setið í stjórn Alvotech frá árinu 2022 og þekkir því félagið, stefnu, rekstur og menningu afar vel. Hún lauk B.Sc.-prófi í líffræði með láði frá Lakehead-háskólanum í Ontario, Kanada og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Case Western Reserve University School of Law í Ohio, Bandaríkjunum þar sem hún sérhæfði sig í einkaleyfarétti.
Um Alvotech
Alvotech er líftæknifyrirtæki stofnað af Róberti Wessman sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þróunar- og framleiðsluþættir í höndum fyrirtækisins. Fimm líftæknilyfjahliðstæður hafa hlotið markaðsleyfi og eru komnar á markað alþjóðlega, hliðstæður við Humira (adalimumab), Stelara (ustekinumab), Simponi (golimumab), Eylea (aflibercept) og Prolia/Xgeva (denosumab). Alvotech vinnur auk þess að þróun fjölda líftæknilyfjahliðstæðna sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu og krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.
Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Alvotech, á fjárfestasíðu okkar og á almennri vefsíðu félagsins á ensku. Fylgjast má með starfsemi Alvotech á LinkedIn, Facebook, Instagram og YouTube.
Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
alvotech.ir@alvotech.com
Viðhengi